Ónýtavatn er í Veiðivötnum sem óhætt er að segja að séu ein rómuðustu, gjöfulustu, og frægustu veiðivötn landsins.
Um er að ræða vatnaklasa í Landmannaafrétti sem samanstendur af allt að 50 vötnum, sem mörg hver eru sprengigígar. Um er að ræða bæði lítil sem stór vötn sem eru í um 570 ~ 590 metrum yfir sjávarmáli.
Flestir telja veiðivatnasvæðið eitt það fallegasta á landinu.
Ónýtavatn
Í námunda við Litla Skálavatn er Ónýtavatn á hægri hönd ef ekið er til suðurs í átt að Snjóölduvatni. Þetta vatn er allstórt, eða um 1.09 km2 að flatarmáli, og 23 metra djúpt þar sem það er dýpst. Meðaldýptin er hinsvegar um 8 metrar. Ónýtavatn liggur í tæplega 574 metrum yfir sjávarmáli.
Í vatnið renuur árspræna úr Grænavatni.
Í vatninu er eingöngu urriði og nokkuð mikið af honum. Þetta er klárlega vatn sem allir ættu að reyna við á för um vatnasvæðið enda er oft góð veiði í vatninu.
Veiðistaðir eru nokkrir, en það er um að gera að reyna aðra staði en þá sem merktir eru á korti einnig.