Heim / Veiðileyfasalar / Fish Partner / Norðlingafljót

Norðlingafljót

Norðlingafljót er ein fallegasta laxveiðiá landsins, en áin á frumupptök í Efri Fljótadrögum, uppi undir Langjökli.

Norðlingafljót að hluta til dragá en einnig með veruleg lindáreinkenni. Frá upptökum rennur það til vesturs, norðan Sauðafjalla, Þorvaldsháls og Hallmundarhrauns uns það nær byggð, efst í Hvítársíðu. Á þessari leið falla til þess ýmsir lækir og kvíslar úr vötnum og uppsprettum. Einnig smáar jökulkvíslar úr Langjökli. Fljótið fellur í Hvítá skammt neðan við Húsafell og er þá orðið allvatnsmikið. Heildarlengd þess er 66 km.

Ekki er fiskgengt í Norðlingafljót frá sjó. Fyrsti tálminn er við Barnafossa í Hvítá, og síðan fossar í fljótinu sjálfu, bæði nálægt ármótum sem og við Þorvaldsháls, og er því hafbeitarlaxi sleppt í ánna ár hvert til endurveiða.

Áin er í stórbrotnu umhverfi og er veiðivon mikil á 75 merktum veiðistöðum árinnar, auk fjölda ómerktra staða sem allir geta gefið vænan laxinn.

Veitt er á 4 – 6 stangir á dag í Norðlingafljóti og er tímabilið þar heldur styttra en gengur og gerist, en það hefst ekki fyrr en 18. júlí og nær til 30. september. Í ljósi þessa eru veiðitölur nokkuð eftirteknaverðar en ár hvert eru veiddir um eða yfir 600 laxar, og eru margir þeirra stórlaxar.

Norðlingafljót er tilvalinn áfangastaður fyrir fjölskyldur og veiðihópa, en í Húsafelli er að finna ýmsa þjónustu við ferðalanga.
Veiðihús er til afnota fyrir veiðimenn og gegnir gamli bærinn að Húsafelli því hlutverki. Hefur aðstaða öll verið löguð að þörfum veiðimanna.

Skemmtilegar myndir frá svæðinu:

x

Check Also

Skuggi – Hvítá

Hvítá í Borgarfirði er 117 km löng jökulá sem aðskilur Borgarfjarðarsýslu frá Mýrasýslu. Uppspretta Hvítár er við Eiríksjökul, hún rennur út í hafið nálægt Borgarnesi. ...