Heim / Laxveiði / Laxveiði á Norðurlandi / Laxá í Aðaldal- Nesveiðar

Laxá í Aðaldal- Nesveiðar

Laxá í Aðaldal Nessvæðið er margrómað veiðsvæði og  er staðsett í um 12 km fjarlægð frá Húsavík.

Til að komast á svæðið er ekinn er þjóðvegur 1 frá Akureyri til Mývatns. Við Húsavíkurafleggjara er beygt til vinstri niður með Skjálfandafljóti og ekið sem leið liggur að Aðaldalsafleggjara við Ýdali.  Þar er ekið til hægri og strax aftur til vinstri inn afleggjara að Nesi á móts við Hafralækjaskóla, framhjá Nesbæjunum.

Nessvæðið státar af stærstu löxum landsins. Það eitt og sér dregur vongóða veiðimenn á bakkana ár eftir ár, en þar fyrir utan er leitun að fallegra veiðivatni. Hvergi á landinu veiðast yfirstærðarlaxar í sama mæli og einmitt hér, og sumarið 2013 státa Nesveiðar af stærstu löxum vertíðarinnar enn eitt árið.

Veiðisvæðið nær til landamerkja jarðanna Ness og Árness, Knútsstaða, Hólmavaðs og Ytra-Fjalls. Það nær frá og með Laxhólma að ofanverðu að vestan, til og með veiðistaðanna fyrir landi Knútsstaða. Veiðisvæðið er klofið af jörðunum Jarlsstöðum og Tjörn (vesturbakki) og Árbót (austurbakki), en þau svæði fylgja ekki Nesveiðum. Einnig tilheyrir Hrúthólmi, sem er ofan Grástraums, Jarlsstöðum, en Straumeyjar, sem eru fyrir landi Jarlsstaða, tilheyra Nesveiðum. Þar mega veiðimenn veiða úr eyjunum. Austurbakkinn til móts við land Hólmavaðs og Ytra-Fjalls fylgir ekki veiðunum.

Á Nesveiðum er gott að geta treyst veiðitækjum sínum. Margur stórlaxinn hefur skilið eftir sig brostin hjörtu eftir að hafa haft betur í glímunni við veiðimenn. Allt aðgengi er til mikillar fyrirmyndar, og ekki er þörf á fjórhjóladrifsbíl nema að mikið hafi rignt, en þá geta myndast pollar á veiðislóðum. Ekki þarf að fara mörgum orðum um þá hefð og dýrðarljóma sem umlykja veiðarnar. Flestir heimamenn starfa sem leiðsögumenn á bökkum árinnar, og gefur það veiðunum aukið vægi að hafa reyndan mann sér við hlið. Á sumum hyljum þarf að notast við bát og gera menn það á eigin ábyrgð. Tvíhendur eru mest notaðar við veiðarnar en einhendur eru einnig brúkaðar ef veiðimenn kjósa svo. Hausttíminn á Nesveiðum er sérlega spennandi, en þá veiðast gjarnan stærstu laxar landsins þegar að hængurinn er orðinn grimmur.

Veitt er á 6 – 8 stangir út tímabilið sem nær frá 1. júlí til 20. september, og er öllum laxi sleppt.

x

Check Also

Blanda 1 neðsta svæði Blöndu

Blanda 1 er neðsta svæði Blöndu, sem er jökulá í Austur-Húnavatnssýslu á Norðvesturlandi og rennur í gegnum Blönduós, í um 240 km fjarlægð frá Reykjavík. ...