Leirvogsá

Leirvogsá er spennandi og gjöful laxveiðiá í fögru umhverfi aðeins steinsnar frá höfuðborginni og tilheyrir Mosfellsbæ.
Leirvogsá er dragá með lindarvatnsáhrifum og er vatnasvið hennar um það bil 85 ferkílómetrar. Hún rennur úr Leirvogsvatni og er um það bil 12 kílómetra löng, en fiskgengi hlutinn er um átta kílómetrar og endar undir Tröllafossi.
Umhverfi árinnar er einstakt með fjölda fallegra hylja og strengja sem freista laxveiðimanna.

Í Leirvogsá er rúmt um veiðimenn enda aðeins veitt á tvær stangir. Há meðalveiði á stöng hefur freistað veiðimanna í Leirvogsá í gegnum tíðina og veiðin sumarið 2013 var góð eða 603 laxar, rúmlega 3 laxar á stöng á dag. Vænn sjóbirtingur hefur gert sig heimankominn í Leirvogsá undanfarin ár og kætt veiðimenn á milli þess sem þeir landa laxinum.

Margir fjölbreyttir veiðistaðir prýða þessa fallegu á og í Leirvogsá eru veiðimenn í miklu návígi við laxinn og því vissara að fara varlega að hyljunum.

Í Leirvogsá er veitt með 2 stöngum á dag og nær tímabilið frá 27. júní til 26. september.

x

Check Also

Elliðaár í Elliðarárdal

Elliðaár eru ár sem renna frá Elliðavatni skammt frá Reykjavík, um Elliðaárdal og út í Faxaflóa. Árnar kvíslast og því heita þær Elliðaár en ekki ...