Heim / Veiðistaðakort Veiðistaðavefsins – Vífilsstaðavatn

Veiðistaðakort Veiðistaðavefsins – Vífilsstaðavatn

 

Hér gefur að líta marga af veiðistöðum Vífilsstaðavatns. Þetta er hinsvegar engan vegin tæmandi listi, heldur einungis um þekkta staði að ræða, og því um að gera að prófa álitlega staði.
Hafið endilega samband ef þið hafið upplýsingar um þessa eða aðra álitlega staði, eða viljið hengja myndir frá ykkur inn á kortið.

Hér á eftir er gömul umsögn frá Engilberti Jenssen, en hann þekkir Vífilsstaðavatn betur en margir:

Í skjóli við þúfurnar

Ég legg áherslu á að veiðimenn við vatnið haldi sig á bakkanum og veiði með augun og eyrun opin og reyni að átta sig á lífríkinu og eðli þess.
Vatnið er grunnt og í því er töluverður gróður. Margir veiðimenn bölva gróðrinum og segja að ekki sé hægt að veiða í vatninu meiripart ársins vegna gróðurs.
Þetta er náttúrulega argasta vitleysa, því að fiskurinn leitar í gróðurinn, bæði vegna þess að þar er mest af ætinu og þar hefur fiskurinn skjól.
Ég mæli þess vegna eindregið með því að menn kasti meðfram gróðrinum. Ég lofa að það ber árangur.

Við suðurenda vatnsins eru nokkrar gróðurtorfur í vatninu þar sem ég geng að fiski vísum. Hann liggur hlémegin við torfurnar og tínir upp í sig pöddur sem losna úr gróðrinum.
Ég hef stundað það að kasta á þessar torfur með góður árangri. Yfirleitt tek ég einn fisk, færi mig þá að næstu torfu þar sem ég endurtek leikinn og þannig koll af kolli þar til ég fer aftur að þeirri fyrstu.

Það bregst ekki að önnur bleikja er komin í plássið.

Til baka á upplýsingasíðu