Norðurá I

Norðurá I sem talin er af mörgum vera drottning íslenskra laxveiðiáa er í Borgarfirði, um 110 km fjarlægð frá Reykjavík, ef miðað er við staðsetningu veiðihússins á Rjúpnaási.

Norðurá á upptök sín uppi á Holtavörðuheiði í Holtavörðuvatni og eftir að fjölmargir lækir sameinast ánni verður hún að þeirri stórá sem hún er þegar hún kemur niður af heiðinni. Veiðisvæði Norðurár nær í heild sinni frá brú við Fornahvamm niður að ármótum Norðurár og Hvítár.

Þetta er ein allra besta laxveiðiá landsins og hefur ár eftir ár verið í fremstu röð yfir aflahæstu ár landsins með tæplega 1600 laxa meðalveiði.

Ánni er skipt upp í 3 svæði, Norðurá I sem er neðsta svæðið, Norðurá 2 sem er aðalsvæði Norðurár, og í lokin Fjallið.
Í ánni eru um 170 merktir veiðistaðir. Fjölbreytileiki þeirra er mikill, allt frá nettum strengjum, gljúfrum og upp í stórar og vatnsmiklar breiður. Þrír fossar eru helstir í Norðurá eins og áður er sagt, Laxfoss, Glanni og Krókfoss, hver öðrum fallegri. Af þeim er Laxfoss líklegast sá þekktasti, og hjálpar þar kannski til nafnið á einu sögufrægasta farþegaskipi Íslendinga frá fyrri tíð.

Veiðisvæði Norðurár I tekur breytingum yfir sumarið. Frá 6. júní  (hádegi) nær veiðisvæðið frá og með Kálfhyl á Stekkssvæðinu og upp að brú við Fornahvamm. Frá 6. júlí  (hádegi) nær veiðisvæðið frá Engjanefi við Munaðarnes til og með Hvammsleiti. Frá 1. september og til loka veiðitímans 8. sept. nær veiðisvæðið frá Engjanefi og að Króksfossi.

Veiðireglur

Eingöngu er leyfð veiði á flugu og skal öllum laxi 70 cm eða stærri sleppt.
Kvóti er 5 laxar á stöng á dag í Norðurá I

Fleiri svæði í Norðurá

Veiðisvæði Norðurár II

Veiðisvæði Norðurár II er nokkuð breytilegt á veiðitímanum. 5. júní til 6. júlí (hádegi) er veiðisvæðið frá Engjanefi til og með Kálfhylsbroti. Frá 6. júlí (hádegi) og til 1. sept. (hádegi) er veiðisvæðið frá og með Símastreng og upp að brú við Fornahvamm.

Eingöngu er leyfð veiði á flugu og skal öllum laxi 70 cm eða stærri sleppt.
Kvóti er 3 laxar á stöng á dag.

Veiðisvæði Norðurár – Fjallsins

Veiðisvæði Norðurár – Fjallsins er er efsti hluti Norðurár. Það hefur allt til að bera fyrir veiðimenn sem þyrstir í ævintýri í fallegri en um leið ögrandi náttúru. Bæði er hægt að rölta um grónar grundir niðri á flatlendinu og reyna á sig fram til heiða í því dæmigerða landslagi er þar gefur, klungur og klettum. Áin er heillandi þar sem hún streymir fram ýmist lygn eða stríð, og skiptast á strengir og breiður, fossar og flúðir. Veiðivonin er rík, ekki síst er líða fer á sumarið og er haustar skemma ekki hinir fjölbreyttu haustlitir náttúrunnar fyrir.

Á efsta hluta veiðisvæðisins uppi á heiðinni, frá ármótum Norðurár og Hvassár rennur áin um grófar malareyrar en fellur síðan í gljúfrum með fjölmörgum og breytilegum veiðistöðum. Þarna er mikil náttúrufegurð og auðvelt fyrir veiðimenn að gleyma sér umvafðir hamraveggjum sem lesa má úr ýmsar kynjamyndir, álfaborgir við hvert fótmál því löngum hafa Íslendingar trúað því að náttúran geymi fleira en augað sér.

Er neðar kemur í gljúfrunum er komið að Króksfossi fallegum og gjöfulum veiðistað. Fyrr á tíð komst laxinn ekki upp fyrir fossinn. En í hamfara leysingum fyrir ríflega fimmtíu árum, sprengdi áin af sér ís ofan við fossinn og braut hann stykki úr berginu á fossbrúninni, nægjanlegt fyrir laxinn til að komast upp. Er voraði sást að nú var Norðurá veiðanleg allt upp að upptökum sínum.

Eingöngu er leyfð veiði á flugu og skal öllum laxi 70 cm eða stærri sleppt.
Kvóti er 5 laxar á stöng á dag.

x

Check Also

Skuggi – Hvítá

Hvítá í Borgarfirði er 117 km löng jökulá sem aðskilur Borgarfjarðarsýslu frá Mýrasýslu. Uppspretta Hvítár er við Eiríksjökul, hún rennur út í hafið nálægt Borgarnesi. ...